Dísa Óskars

Ég heiti Bryndís, alltaf kölluð Dísa.

Ég er grafískur hönnuður, matartæknir og markþjálfi en helst kýs ég að kalla mig hugmyndasmið. Ég elska að fá nýjar hugmyndir og þróa og prófa og deila svo með öðrum.

Síðan 2010 hef ég rekið ferðaþjónustu í Skjaldarvík rétt við Akureyri. Á þessum tíma hef ég lært margt nýtt, hvað varða mat, nýtni, umhverfið, gesti og ekki síst hvað varðar starfsfólk og samskipti. Það sem ég hef lært hef ég lært bæði af mistökum, námskeiðum hjá sérfræðingum sem og bara fólkinu í kring um mig.

Því sem betur fer eru nýjir tímar í uppsigligu þar sem fólk deilir því sem það kann. Muniði þá tíma þegar konur tímdu ekki einu sinni að gefa uppskriftirnar sínar :)

Ég fæ endalausar spurningar alla daga um hvernig ég geri hitt og þetta og að geta deilt mínum hugmyndum eða lærdómi finnst mér algerlega magnað því eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að læra eitthvað nýtt sjálf.

Mottóið mitt er: „Better done than perfect“... því mér finnst mun nauðsynlegra að láta vaða og prófa allskonar í staðin fyrir að vera alltaf að bíða eftir rétta augnablikinu, sem kemur svo því miður svo kannski bara aldrei.

Ég vona að þú hafir eins gaman að þessu námskeiði eins og við Brynja höfum við að búa það til. Og látir vaða í að prófa þetta alltsaman.

Fáðu fría gjöf frá okkur!

Viltu læra að búa til þitt eigið andlitsvatn?

Skráðu þig og við kennum þér að búa til dásamlegt frískandi lífrænt andlitsmisti.

Brynja Birgis

Ég heiti Brynja, ég hef í gegnum tíðina elskað að kenna, miðla reynslu minni og hvetja fólk til að vera það sjálft, ná fram því besta í sjálfum sér og vera í stöðugri framþróun. Nær alla tíð hef ég unnið með fólk, ég er menntuð sem snyrtifræðingur, markþjálfi og jógakennari og hef lokið fyrsta stig í jóga þerapíu. Í dag sinni ég markþjálfun, held námskeið og fyrirlestra. Ég kenndi áður áfanga í snyrtifræði á framhaldsskólastigi og kenndi jógatíma á grunnskóastigi grunnskóla og kundalini jóga í Yogahúsinu. Ég er góð í að miðla þekkingu minni og styrkur minn liggur í að efla fólk í að finna sína leið til þess að komast þangað sem það dreymir um. Ég hef skýra sýn og trúi því að lífsgæði byrji hjá okkur sjálfum og felist meðal annars í góðri og réttri sjálfsmynd. Þetta hef ég upplifað á sjálfri mér og séð ávinninginn hjá þeim sem hafa komið til mín í þjálfun.

Að byggja upp jákvætt sjálf er ekki bara vinna heldur persónuleg ákvörðun og skuldbinding. Það er ferðalag sem þú ákveður að fara í og ég mæli sannarlega með. Þegar ég var 17 til 18 ára þurfti ég að gera eitthvað í mínum málum varðandi sjálfs- og líkamsímynd mína. Ég var sannarlega ekki að sjá mig í réttu ljósi en síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Á þessum 20 árum hef ég lært ýmislegt og er von mín sú að aðrir fái tækifæri á að fara styttri leið en ég fór. Námskeiðið er skemmtilegt ferðalagi í að byggja upp fallega sjálfsmynd.

 Ég hef sjaldan einn hlut á minni könnu og liggur áhugi minn á ýmsum sviðum en ég er samt þeim eiginleikum gædd að geta sökkt mér í það sem fangar huga minn. Það er ástæðan fyrir því að ég hef sett saman námskeið sem byggir á því að efla sjálfsvitund, því þegar sjálfsvitundin er góð verður lífið svo mikið auðveldara og skemmtilegra. Markmiðið er að þú fáir verkfæri til að geta byggt þig upp og látið drauma þína rætast. Ekki sitja og bíða eftir að hlutirnir gerist það geri ég sjaldnast heldur læt ég hlutina gerast. Minn styrkleiki er að hrífa fólk í kringum mig með í gleðina og ég vil fá þig með.

Mottóið mitt er: Að sjá það fallega því allskonar er fallegt.